Þetta mál hefur sjálfkrafa verið sett í vöktun. Þú getur afvaktað það ofarlega á síðunni. Þú getur einnig breytt þessari virkni í notendastillingum.

434 | Þjóðarsjóður

149. þing | 5.12.2018 | Lagafrumvarp | Stjórnarmál

Umsagnir: 15 | Þingskjöl: 6 | Staða: Bíður 2. umræðu

Samantekt

Markmið: Að treysta fjárhagslegan styrk ríkissjóðs til að mæta afleiðingum af meiri háttar ófyrirséðum áföllum sem þjóðarbúið verður fyrir.

Helstu breytingar og nýjungar: Lagt er til að komið verði á fót svokölluðum Þjóðarsjóði sem gert er ráð fyrir að yrði eins konar áfallavörn fyrir þjóðina þegar ríkissjóður verður fyrir fjárhagslegri ágjöf í tengslum við meiri háttar ófyrirséð áföll á þjóðarhag, annaðhvort vegna afkomubrests eða vegna kostnaðar við viðbragðsráðstafanir sem stjórnvöld hafa talið óhjákvæmilegt að grípa til í kjölfar áfalls eða til að varna því. Þjóðarsjóðurinn yrði eign íslenska ríkisins og lagt er til að sérstök stjórn verði sett yfir hann og fari með yfirstjórn hans. Gert er ráð fyrir að auknar tekjur ríkissjóðs á komandi árum af arðgreiðslum og auðlindaafnotagjöldum frá orkuvinnslufyrirtækjum verði nýttar til að fjármagna framlög í sjóðinn og að hann fjárfesti þá fjármuni eingöngu í erlendum verðbréfum samkvæmt fjárfestingarstefnu sem stjórn sjóðsins setur með samþykki ráðherra. Að auki er gert ráð fyrir að allar tekjur og hagnaður af fjármunaeign sjóðsins renni til hans. Ef til ófyrirséðs áfalls kemur, og að uppfylltum tilteknum skilyrðum og mati nefndar á fjárhagsáhrifum áfallsins, er lagt til að ráðherra geti gert tillögu um að Alþingi samþykki þingsályktun um að stjórn Þjóðarsjóðs úthluti til ríkissjóðs framlagi sem nemi allt að helmingi eigna sjóðsins vegna eins atburðar en veiti síðan lagaheimild í næstu fjárlögum. Gert er ráð fyrir að fyrirkomulagið á ráðstöfun úr Þjóðarsjóði feli í sér það skilyrði að fjárhagstjón ríkissjóðs nemi a.m.k. 5% af meðaltekjum síðustu þriggja rekstrarára. 

Breytingar á lögum og tengd mál: Um er að ræða ný lög en við gildistöku laganna verða breytingar á lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998, lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996.

Kostnaður og tekjur: Gert er ráð fyrir að daglegur rekstur sjóðsins verði hóflegur að umfangi og að kostnaður vegna sjóðsins greiðist af tekjum hans eða eigin fé þannig að hann hafi ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs. Þar sem nokkur kostnaður getur myndast við rekstur áður en fyrstu greiðslur renna til sjóðsins er gert ráð fyrir að rekstrarfé sem sjóðurinn þarf á að halda fyrst í stað við undirbúning starfseminnar verði fjármagnað tímabundið úr ríkissjóði.


Gert er ráð fyrir að á næstu misserum marki stjórnvöld eigenda- og arðgreiðslustefnu gagnvart orkuvinnslufyrirtækjum í eigu ríkisins sem feli í sér auknar tekjur ríkissjóðs af nýtingu þeirra á orkuauðlindum, einkum frá Landsvirkjun. Þar sem þessar ákvarðanir liggja ekki fyrir strax er nokkur óvissa um hve miklar þessar nýju tekjur verða en á opinberum vettvangi hefur verið rætt um 10–20 milljarða kr. á ári. Til bráðabirgða er miðað við að tekjur ríkissjóðs aukist árlega um 10 milljarða kr. að lágmarki og að jafnháu framlagi verði veitt til Þjóðarsjóðs. Í þessu sambandi má benda á að þetta verða að teljast vera fremur óvenjulegar tekjur þar sem þær eru upprunnar í auðlindarentu sem óvíst er að verði viðvarandi um alla framtíð sökum þess að ýmislegt getur haft áhrif á þær, svo sem breytingar í orkubúskapnum, sviptingar á alþjóðlegum orkumörkuðum og tæknibreytingar, t.d. aukin hagnýting vind- eða sólarorku. Ef slíkar forsendur verða hagstæðari en nú er gert ráð fyrir gæti uppbygging sjóðsins orðið hraðari en á hinn bóginn hægari ef þær reynast óhagstæðari. 

Aðrar upplýsingar: Þjóðarauðssjóðir í öðrum löndum


Ástralía
Future Fund

Bandaríkin (Alaska)
Alaska Permanent Fund

Chile
Fondo de Estabilización Económica y Social
Fondo de Reserva de Pensiones

Noregur
Statens pensjonsfond utland (norska) (enska)
--Lög um norska þjóðarauðssjóðinn (lov om Statens pensjonsfond)  LOV-2005-12-21-123.
--Reglur fjármálaráðherra um umboð Seðlabanka Noregs til að hafa umsjón með þjóðarauðssjóðnum (Mandat for forvaltning av Statens pensjonsfond utland)  FOR-2010-11-08-1414.
--Skýrsla og tillögur nefndar um breytingar á lögum um seðlabanka Noregs (NOU 2017:13) (norska) (enska).

Nýja-Sjáland
New Zealand Superannuation Fund

Afgreiðsla: Frumvarpið var afgreitt úr nefnd til 2. umræðu.

Efnisflokkar: Hagstjórn: Efnahagsmál  |  Hagstjórn: Fjárreiður ríkisins

Þingskjöl

Þingskjal 594 | 5.12.2018
Flutningsmenn: Bjarni Benediktsson
Þingskjal 1576 | 21.5.2019
Nefndarálit    
Þingskjal 1577 | 21.5.2019
Þingskjal 1583 | 21.5.2019
Nefndarálit    
Þingskjal 1596 | 23.5.2019
Nefndarálit    
Þingskjal 1675 | 31.5.2019
Nefndarálit    

Umsagnir