Þetta mál hefur sjálfkrafa verið sett í vöktun. Þú getur afvaktað það ofarlega á síðunni. Þú getur einnig breytt þessari virkni í notendastillingum.
Umsagnir: 13 | Þingskjöl: 6 | Staða: Lokið
Markmið: Að koma á fót nýju fyrirkomulagi launaákvarðana fyrir þá sem féllu undir kjararáð.
Helstu breytingar og nýjungar: Lagt er til að laun þjóðkjörinna manna annars vegar og dómara, saksóknara, ráðherra, ráðuneytisstjóra, ríkissáttasemjara, seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra hins vegar verði ákvörðuð með fastri krónutölufjárhæð og þau síðan endurákvörðuð 1. júlí ár hvert miðað við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins. Jafnframt er lagt til að ráðherra, sem fer með starfsmannamál, geti ákveðið að hækka launin hlutfallslega 1. janúar ár hvert til samræmis við áætlaða breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins svo að launahækkanir þessara aðila verði jafnari og nær almennri þróun kjaramála í tíma en ef hækkunin yrði aðeins einu sinni á ári. Gert er ráð fyrir að laun og starfskjör forsetaritara og nefndarmanna í fullu starfi hjá nokkrum úrskurðarnefndum verði ákvörðuð með hliðsjón af því launafyrirkomulagi sem ákveðið er í 39. gr. a laga nr. 70/1996. Að auki er gert ráð fyrir að laun og starfskjör skrifstofustjóra sem heyra undir ráðherra sem fer með starfsmannamál ríkisins, sem fara með fyrirsvar fyrir hönd ráðherra við gerð kjarasamninga, verði ákveðin af ráðherra með hliðsjón af kjarasamningi sem aðrir skrifstofustjórar Stjórnarráðsins falla undir. Enn fremur er lagt til að laun og starfskjör sendiherra falli undir kjarasamninga og að viðkomandi stéttarfélag semji fyrir þeirra hönd.
Breytingar á lögum og tengd mál: Alls er verið að breyta 16 lögum.
Kostnaður og tekjur: Kjararáð var lagt niður með lögum nr. 60/2018 og því verða útgjöld ríkissjóðs til þess nokkuð minni á árinu 2018 þótt einhver kostnaður hljótist af vinnu við að ganga frá niðurlagningu ráðsins. Með ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 60/2018 er gert ráð fyrir því að núverandi starfsmanni kjararáðs verði boðið starf hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Áætlað er að árlegur kostnaður ráðuneytisins vegna flutnings starfsmannsins nemi um 19 milljónum kr. á ári. Einnig má gera ráð fyrir að umsýslukostnaður vegna nýs launafyrirkomulags forstöðumanna hækki verði frumvarpið að lögum. Þrátt fyrir breytingarnar ættu útgjöld ríkissjóðs að standa í stað.
Aðrar upplýsingar: Skýrsla starfshóps um málefni kjararáðs. Forsætisráðuneytið, febrúar 2018.
Afgreiðsla: Samþykkt með nokkrum breytingum, t.a.m. þeim að fallið var frá því að veita ráðherra heimild til þess að hækka laun 1. janúar ár hvert, breytingum á launum þjóðkjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna, fyrir utan laun dómara og þeirra er fara með ákæruvald, var seinkað til 1. janúar 2020 og lögin munu einnig gilda um laun lögreglustjóra líkt og annarra ákærenda.
Efnisflokkar: Samfélagsmál: Atvinnumál | Samfélagsmál: Félagsmál | Hagstjórn: Fjárreiður ríkisins