Þetta mál hefur sjálfkrafa verið sett í vöktun. Þú getur afvaktað það ofarlega á síðunni. Þú getur einnig breytt þessari virkni í notendastillingum.
Umsagnir: 62 | Þingskjöl: 11 | Staða: Lokið
Markmið: Að tryggja að sjálfsforræði kvenna sem óska eftir þungunarrofi sé virt með því að veita þeim öruggan aðgang að heilbrigðisþjónustu í samræmi við ákvæði laganna.
Helstu breytingar og nýjungar: Lagt er til að konu verði veitt fullt ákvörðunarvald um það hvort hún elur barn fram að lokum 22. viku þungunar, óháð því hvaða ástæður liggja að baki þeim vilja konunnar. Lagt er til að ákvæði laga nr. 25/1975 um að fóstureyðing skuli ætíð framkvæmd eins fljótt og auðið er, helst fyrir lok 12. viku þungunar, standi áfram í nýjum lögum til að undirstrika mikilvægi þess að þungunarrof skuli framkvæmt eins snemma og mögulegt er. Eftir lok 22. viku þungunar er lagt til að einungis verði heimilt að framkvæma þungunarrof ef lífi þungaðrar konu er stefnt í hættu við áframhaldandi þungun eða ef fóstur telst ekki lífvænlegt til frambúðar. Lagt er til að krafa verði gerð um staðfestingu tveggja lækna á því að fóstur teljist ekki lífvænlegt til frambúðar. Gert er ráð fyrir að sérstaklega verði kveðið á um rétt kvenna til fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita í tengslum við þungunarrof og að tryggja skuli aðgang að þungunarrofi í öllum heilbrigðisumdæmum landsins. Einnig er lagt til að þungunarrof með læknisaðgerð skuli framkvæmt á sjúkrahúsi undir handleiðslu sérfræðings á sviði kvenlækninga en einnig skuli heimilt að framkvæma þungunarrof með lyfjagjöf á starfsstöðvum lækna sem landlæknir hefur eftirlit með. Þá er lagt til að gerð verði krafa um fræðslu um áhættu samfara aðgerðinni sem og að konu skuli boðið upp á stuðningsviðtal bæði fyrir og eftir þungunarrof. Enn fremur er gert ráð fyrir að embætti landlæknis haldi ópersónugreinanlega skrá á rafrænu formi yfir öll þungunarrof.
Breytingar á lögum og tengd mál: Um er að ræða ný lög en með gildistöku laganna verða breytingar á lögum um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, nr. 25/1975.
Kostnaður og tekjur: Ekki er gert ráð fyrir áhrifum á ríkissjóð.
Aðrar upplýsingar:
Afgreiðsla: Samþykkt með minni háttar breytingum en þessum helstum: 1) Gerð var orðalagsbreyting sem ætlað er að taka af allan vafa um að það sé réttur konu að láta binda enda á þungun; 2) skýrar er kveðið á um að kona eigi rétt á fræðslu og ráðgjöf læknis, hjúkrunarfræðings, ljósmóður og félagsráðgjafa eftir því sem þörf krefur; og 3) réttur konu til þungunarrofs er tryggður jafnvel þótt heilbrigðisstarfsmaður skorist undan skyldu sinni. Gildistöku laganna var frestað til 1. september 2019.
Efnisflokkar: Heilsa og heilbrigði: Heilbrigðismál