Þetta mál hefur sjálfkrafa verið sett í vöktun. Þú getur afvaktað það ofarlega á síðunni. Þú getur einnig breytt þessari virkni í notendastillingum.

314 | Aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

149. þing | 5.11.2018 | Lagafrumvarp | Stjórnarmál   Samþykkt

Umsagnir: 12 | Þingskjöl: 5 | Staða: Lokið

Samantekt

Markmið:

Að koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka með því að skylda aðila sem stunda starfsemi er kann að verða notuð til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka til að þekkja deili á viðskiptamönnum sínum og starfsemi þeirra og tilkynna um það til lögbærra yfirvalda vakni grunur um eða verði þeir varir við slíka ólögmæta starfsemi. Að innleiða tilskipanir ESB.

Helstu breytingar og nýjungar:

Lagt er til að fleiri aðilar falli undir tilkynningarskyldu og að öllum tilkynningarskyldum aðilum verði gert skylt að framkvæma áhættumat á starfsemi sinni og hafa áhættumiðað eftirlit með samningssamböndum sínum og viðskiptum. Gert er ráð fyrir að eingöngu verði heimilt að framkvæma einfaldaða áreiðanleikakönnun í þeim tilvikum sem áhættumat sýnir fram á minni áhættu en almennt er. Lagt er til að tilkynningarskyldum aðilum verði gert skylt að hafa til staðar aðferðir eða kerfi til að greina hvort viðskiptamaður þeirra teljist í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla og ef svo er ber þeim að framkvæma aukna áreiðanleikakönnun í samræmi við ákvæði laganna. Að auki er lagt til ítarlegra ákvæði um raunverulega eigendur og að fjallað verði um hver telst vera raunverulegur eigandi fjárvörslusjóða og sambærilegra aðila. Gert er ráð fyrir að lögfest verði heitið skrifstofa fjármálagerninga lögreglu, sem í daglegu tali hefur verið kölluð peningaþvættisskrifstofa, og að verkefni hennar séu útfærð með ítarlegri hætti og heimildir hennar til að sinna lögbundnum skyldum sínum til að kalla eftir upplýsingum auknar. Enn fremur er lagt til að öllum opinberum aðilum verði gert skylt að tilkynna skrifstofu fjármálagreininga lögreglu um grunsamleg viðskipti. Gert er ráð fyrir að skipun og hlutverk stýrihóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka verði lögfest. Að auki er lagt til að tryggt verði að allir sem falla undir gildissvið 2. gr. frumvarpsins sæti eftirliti. Lagt er til að þvingunarúrræði og viðurlög verði alfarið færð í hendur eftirlitsaðila, með heimildum til að beita dagsektum, stjórnvaldssektum, birtingum viðurlaga og, í alvarlegri tilvikum, brottvikningu æðstu stjórnenda eða afturköllun starfsleyfa.

Breytingar á lögum og tengd mál: Um er að ræða ný lög og við gildistöku þeirra falla úr gildi lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 64/2006. Með gildistöku laganna verða breytingar á lögum um sölu fasteigna og skipa, nr. 70/2015, og lögum um endurskoðendur, nr. 79/2008.

Kostnaður og tekjur:

Gert er ráð fyrir því að bætt verði við stöðugildi hjá dómsmálaráðuneytinu til að halda utan um og sinna málefnum stýrihóps og öðrum verkefnum sem tengjast aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Ætla má að efling eftirlits með tilkynningarskyldum aðilum muni í upphafi hafa í för með sér kostnað sem nemur allt að þremur stöðugildum. Gert er ráð fyrir að skoðað verði hvort og þá hvernig hægt verði að leggja eftirlitsgjald á þá aðila sem sæta þessu eftirliti eins og aðrir tilkynningarskyldir aðilar greiða vegna eftirlits Fjármálaeftirlitsins.

Aðrar upplýsingar:

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 648/2012 um OTC-afleiður, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár.

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/849 frá 20. maí 2015 um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvættis eða til fjármögnunar hryðjuverkastarfsemi, um breytingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 648/2012, og um niðurfellingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/60/EB og tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2006/70/EB („fjórða peningaþvættistilskipunin“).

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/843 frá 30. maí 2018 um breytingar á tilskipun (ESB) 2015/849 um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvættis eða til fjármögnunar hryðjuverkastarfsemi og tilskipunum 2009/138/EB og 2013/36/ESB („fimmta peningaþvættistilskipunin“).


Anti-money laundering and counter-terrorist financing measures: Iceland. Mutual Evaluation Report. FATF, apríl 2018.

Afgreiðsla: Samþykkt með lítils háttar breytingum.

Efnisflokkar: Lög og réttur: Löggæsla og eftirlit  |  Atvinnuvegir: Viðskipti

Þingskjöl

Þingskjal 367 | 5.11.2018
Flutningsmenn: Sigríður Á. Andersen
Þingskjal 684 | 12.12.2018
Nefndarálit    
Þingskjal 685 | 12.12.2018
Þingskjal 732 | 2.1.2019
Þingskjal 738 | 13.12.2018

Umsagnir

Tollstjóri (umsögn)