Þetta mál hefur sjálfkrafa verið sett í vöktun. Þú getur afvaktað það ofarlega á síðunni. Þú getur einnig breytt þessari virkni í notendastillingum.
Umsagnir: 6 | Þingskjöl: 4 | Staða: Lokið
Markmið:
Að auka gagnsæi í afleiðuviðskiptum, draga úr kerfisáhættu, sem getur stafað af slíkum viðskiptum, og stuðla að fjármálastöðugleika.
Helstu breytingar og nýjungar:
Með samþykkt frumvarpsins yrði reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 648/2012 um OTC (over-the-counter)-afleiður, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár (European Market Infrastructure Regulation, EMIR) innleidd í íslensk lög. Lagt er til að tilkynnt skuli um afleiðusamninga til afleiðuviðskiptaskrár, sem er nýr starfsleyfisskyldur aðili á fjármálamarkaði sem safnar saman og viðheldur gögnum um afleiður. Einnig er lagt til að stöðustofna skuli tiltekna OTC-afleiðusamninga hjá miðlægum mótaðila, þ.e. þá samninga sem eru afleiðusamningar sem ekki eru með viðskipti á skipulegum verðbréfamarkaði. Með stöðustofnun er átt við ferlið við að stofna stöður, þ.m.t. útreikning á hreinni skuldbindingu, og við að tryggja að fjármálagerningar, reiðufé, eða hvort tveggja, sé til staðar til að tryggja áhættuskuldbindingar sem leiðir af stöðunum. Miðlægur mótaðili er nýr starfsleyfisskyldur aðili á fjármálamarkaði sem stillir sér upp á milli aðila og verður nýr kaupandi gagnvart hverjum seljanda og öfugt. Hann gerir kröfur um tryggingar til að lágmarka áhættu við uppgjör og kemur þannig í veg fyrir keðjuverkun vanskila á markaði. Að auki eru gerðar nýjar kröfur um áhættustýringu vegna allra tvíhliða OTC-afleiðna sem ekki eru stöðustofnaðar miðlægt. Enn fremur myndi samþykkt frumvarpsins skapa umgjörð um starfsemi miðlægra mótaðila og afleiðuviðskiptaskráningar.
Breytingar á lögum og tengd mál: Um er að ræða ný lög, en með gildistöku laganna verða breytingar á lögum um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum, nr. 90/1999.
Kostnaður og tekjur:
Gert er ráð fyrir að verkefni Fjármálaeftirlitsins muni aukast sem nemur ½–1 stöðugildi miðað við núverandi aðstæður eða sem samsvarar 8–16 milljónum kr. á ársgrundvelli.
Aðrar upplýsingar:
Afgreiðsla: Frumvarpið var samþykkt með lítils háttar breytingum.
Efnisflokkar: Erlend samskipti: Alþjóðasamningar og utanríkismál | Atvinnuvegir: Viðskipti