Markmið:
Að útfæra markmið fjármálastefnu um tekjur og gjöld hins opinbera og þróun þeirra.
Helstu breytingar og nýjungar:
Alls er gert ráð fyrir að heildarfjárfesting hins opinbera muni nema um 338 milljörðum kr. á tímabilinu 2019-2023. Meðal helstu verkefna er bygging nýs Landspítala við Hringbraut og Húss íslenskunnar, innviðauppbygging á ferðamannastöðum, kaup á þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna og uppbygging hjúkrunarheimila.
Heilbrigðismál
Áætlað er að heildarútgjöld verði 1.187,3 milljarðar kr. á tímabilinu. Fyrir utan uppbyggingu Landspítala eru helstu verkefnin þau að efla geðheilbrigðismál, styrkja heilsugæsluna og draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga.
Félags-, húsnæðis- og tryggingamál
Reiknað er með að heildarútgjöld verði um 1.083,4 milljarðar kr. á tímabilinu. Gert er ráð fyrir kerfisbreytingu til að bæta kjör örorkulífeyrisþega og efla þá til samfélagsþátttöku. Einnig er áformað að hækka hámarksfjárhæðir í fæðingarorlofi og lengja orlofstímann.
Mennta- og menningarmál
Áætlað er að heildarútgjöld verði 509 milljarðar kr. á tímabilinu. Aðaláherslan er á aukin framlög til háskóla og lögð verður áhersla á aðgerðaáætlun um máltækni, eflingu höfuðsafna og styrkingu faglegra starfslauna- og verkefnasjóða listamanna.
Samgöngu- og fjarskiptamál
Gert er ráð fyrir að heildarútgjöld nemi 200 milljörðum kr. á tímabilinu. Gert er ráð fyrir að 5,5 milljörðum verði árlega veitt í tímabundið átak í samgönguframkvæmdum árin 2019-2021 og það verði fjármagnað með arðgreiðslum frá fjármálafyrirtækjum í eigu ríkisins. Meðal helstu framkvæmda eru Dýrafjarðargöng, Dettifossvegur, Grindavíkurvegur og Vesturlandsvegur um Kjalarnes. Að auki er reiknað með að ljósleiðaravæðingu landsins verði lokið árið 2020.
Almanna- og réttaröryggi
Reiknað er með að heildarútgjöld verði 144 milljarðar kr. á tímabilinu. Bæta á landamæravörslu og samþætta landamærastjórnun, styrkja löggæslu og rekstur Landhelgisgæslunnar og vinna að aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota.
Umhverfismál
Áætlað er að heildarútgjöld nemi 99 milljörðum kr. á tímabilinu. Unnið verður að stofnun Miðhálendisþjóðgarðs, stutt við landvörslu og framlög aukin til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Utanríkismál
Gert er ráð fyrir að heildarútgjöld verði 86 milljarðar kr. á tímabilinu. Reiknað er með að framlög til opinberrar þróunarsamvinnu aukist úr 0,26% af vergum þjóðartekjum á yfirstandandi ári í 0,35% árið 2022. Áætlað er að framlög til uppbyggingarsjóðs EES fari hækkandi á tímabilinu og gert er ráð fyrir aukningu vegna varnarsamstarfs við Bandaríkin og aðildar að Atlantshafsbandalaginu.
Í áætluninni er gengið út frá því að tekjuskattur í neðra skattþrepi geti lækkað um eitt prósentustig í áföngum á áætlunartímanum. Einnig er stefnt að heildarendurskoðun tekjuskatts einstaklinga samhliða endurskoðun bótakerfa. Gert er ráð fyrir lækkun tryggingagjalds um 0,25 prósentustig á árinu 2019, úr 6,85% í 6,6%. Stefnt er að því að virðisaukaskattur á bækur verði afnuminn í byrjun árs 2019. Sérstakur bankaskattur verður lækkaður úr 0,376% í 0,145% á áætlunartímabilinu. Fyrirhugað er að hækka kolefnisgjald um 10% árið 2019 og aftur 2020. Miðað er við að gjaldtaka á ferðamenn verði hafin frá og með árinu 2020.
Stefnt er að því að heildarskuldir hins opinbera samkvæmt viðmiðum laga um opinber fjármál fari undir lögboðið 30% viðmið í árslok 2019, eða ári fyrr en fjármálastefnan gerir ráð fyrir og verði um 22% í árslok 2023.
Kostnaður og tekjur:
Áætlaðar heildartekjur og -gjöld fyrir tímabilið 2019-2023:
Tekjur Útgjöld
2019: 1.235,4 milljarðar kr. 1.198,7 milljarðar kr.
2020: 1.290,8 milljarðar kr. 1.255,8 milljarðar kr.
2021: 1.347,2 milljarðar kr. 1.314,4 milljarðar kr.
2022: 1.399,1 milljarðar kr. 1.364,2 milljarðar kr.
2023: 1.464,0 milljarðar kr. 1.423,0 milljarðar kr.
Aðrar upplýsingar:
Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Fjármálaáætlun. Almennar upplýsingar um fjármálaáætlun.
Fjármálaáætlun 2019-2023. Kynningarefni.
Hagstofan
Fjármál hins opinbera. Útgáfur, talnaefni, fréttatilkynningar.
Efnahagur. Hér er hægt að sækja sögulegar, tölulegar upplýsingar um: fjármál hins opinbera, þjóðhagsreikninga, þjóðhagsspá, utanríkisverslun og verðlag.
Seðlabanki Íslands
Fjármálastöðugleiki.
Hagtölur. Seðlabankinn annast skipulega öflun, skráningu og úrvinnslu tölfræðilegra gagna.
Hagvísar Seðlabanka Íslands. Yfirlit efnahagsmála og safn hagvísa.
Afgreiðsla: Þingsályktunartillagan var samþykkt óbreytt.
Efnisflokkar:
Hagstjórn: Efnahagsmál
|
Hagstjórn: Fjárreiður ríkisins