Þetta mál hefur sjálfkrafa verið sett í vöktun. Þú getur afvaktað það ofarlega á síðunni. Þú getur einnig breytt þessari virkni í notendastillingum.
Umsagnir: 18 | Þingskjöl: 4 | Staða: Lokið
Markmið: Að veita íslenskum stjórnvöldum betri yfirsýn yfir stöðuna á innlendum vinnumarkaði hvað varðar starfsemi erlendra þjónustuveitenda. Að styrkja eftirlit á vinnumarkaði til að tryggja að laun og önnur starfskjör erlendra starfsmanna, sem sendir eru tímabundið hingað til lands á vegum erlendra fyrirtækja og erlendra starfsmanna á vegum starfsmannaleigna hérlendis, séu í samræmi við lög og gildandi kjarasamninga. Að stuðla að jafnri samkeppnisstöðu innlendra og erlendra fyrirtækja á innlendum vinnumarkaði.
Helstu breytingar og nýjungar:
Lagðar eru til breytingar á lögum um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra. Lagðar eru til breytingar á ýmsum lögum sem gilda á innlendum vinnumarkaði, m.a. í því skyni að bregðast við tilteknum aðstæðum sem upp hafa komið við framkvæmd viðkomandi laga, s.s. í tengslum við eftirlit á vinnumarkaði. Lagt er til að kveðið verði á um svokallaða keðjuábyrgð notendafyrirtækja í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð. Jafnframt er lagt til að Vinnumálastofnun verði heimilt að leggja stjórnvaldssektir á fyrirtæki sem veita stofnuninni ekki upplýsingar og/eða aðgang að gögnum í samræmi við lög um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra, nr. 45/2007.
Breytingar á lögum og tengd mál:
Lög um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra, nr. 45/2007.
Lög um starfsmannaleigur, nr. 139/2005.
Lög um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum, nr. 42/2010.
Lög um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002.
Lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980.
Lög um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, nr. 105/2014.
Kostnaður og tekjur: Ekki er gert ráð fyrir auknum útgjöldum ríkissjóðs.
Aðrar upplýsingar:
Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/67/ESB frá 15. maí 2014 um framfylgd tilskipunar 96/71/EB um störf útsendra starfsmanna í tengslum við veitingu þjónustu og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 1024/2012 um samvinnu á sviði stjórnsýslu fyrir tilstilli upplýsingakerfisins fyrir innri markaðinn („reglugerðin um IM-upplýsingakerfið“).
Afgreiðsla: Samþykkt með þeirri breytingu að 27. gr. frumvarpsins er felld brott þar sem ekki er um eiginlega innleiðingu á Evróputilskipun að ræða heldur lögfestingu á efnisreglum hennar. Í stað 27. gr. var bætt við bráðabirgðaákvæði um skipun nefndar til að fylgjast með aðstæðum á vinnumarkaði og leggja til við ráðherra að lögum þessum verði breytt verði aðstæður á vinnumarkaði með þeim hætti að mikilvægt þyki að kveða á um að ábyrgð notendafyrirtækja skv. 11. gr. a gildi um notendafyrirtæki í öðrum atvinnugreinum en byggingarstarfsemi eða mannvirkjagerð.
Efnisflokkar: Erlend samskipti: Alþjóðasamningar og utanríkismál | Samfélagsmál: Atvinnumál | Samfélagsmál: Félagsmál | Hagstjórn: Fjárreiður ríkisins | Atvinnuvegir: Viðskipti