Þetta mál hefur sjálfkrafa verið sett í vöktun. Þú getur afvaktað það ofarlega á síðunni. Þú getur einnig breytt þessari virkni í notendastillingum.
Umsagnir: 31 | Þingskjöl: 5 | Staða: Lokið
Markmið: Að gæta þess að nýting og vernd auðlinda haf- og strandsvæða verði í samræmi við skipulag sem hefur efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar þarfir landsmanna, heilbrigði þeirra og öryggi að leiðarljósi. Að veita grundvöll fyrir fjölbreyttri og sjálfbærri nýtingu og vernd og tryggja réttaröryggi, samráð og samvinnu við skipulagsgerð sem og faglegan undirbúning framkvæmda á haf- og strandsvæðum.
Helstu breytingar og nýjungar: Lagt er til að mótuð verði stefna um skipulag haf- og strandsvæða sem nái út að ytri mörkum efnahagslögsögunnar. Í stefnunni yrði lagður grundvöllur að gerð nákvæmara skipulags á tilteknum svæðum, svokallaðs strandsvæðisskipulags. Strandsvæðisskipulag er skipulagsáætlun fyrir tiltekið strandsvæði þar sem koma fram markmið og ákvarðanir viðkomandi stjórnvalda um framtíðarnýtingu og vernd á tilteknu svæði og hvers konar framkvæmdir falla að nýtingu á svæðinu. Gert er ráð fyrir að ríkið sjái um gerð heildarskipulag hafsvæðisins og að svæðisráð, með aðkomu bæði ríkis og sveitarfélaga, beri ábyrgð á gerð strandsvæðisskipulags. Gert er ráð fyrir að Skipulagsstofnun hafi eftirlit með framkvæmd laganna og að hún annist gerð strandsvæðisskipulags í umboði svæðisráða og verði þeim til ráðgjafar.
Breytingar á lögum og tengd mál:
Um er að ræða ný lög, en með gildistöku laganna verða breytingar á:
- Skipulagslögum, nr. 123/2010,
- Lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda, nr. 33/2004,
- Lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998,
- Lögum um mannvirki, nr. 160/2010,
- Lögum um fiskeldi, nr. 71/2008,
- Lögum um skeldýrarækt, nr. 90/2011,
- Raforkulögum, nr. 65/2003,
- Lögum um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990,
- Lögum um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001 og
- Hafnalögum, nr. 61/2003.
Kostnaður og tekjur: Gert er ráð fyrir að Skipulagsstofnun beri árlegan kostnað sem nemur 52 milljónum kr. (12 milljóna kr. kostnaður við eitt stöðugildi ásamt opnun rafrænnar gáttar og 40 milljónir kr. vegna aðkeyptrar sérfræði- og rannsóknaþjónustu) á þriggja ára tímabili vegna gerðar strandsvæðisskipulags fyrir Vestfirði og Austfirði. Þar að auki er gert ráð fyrir óverulegum kostnaði fyrir ríkissjóð vegna svæðisráða. Þar sem ekki er fyrirliggjandi fjöldi strandsvæðisskipulaga sem þarf að vinna er ekki hægt að reikna heildarkostnaðaráhrif frumvarpsins.
Aðrar upplýsingar:
Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/89/ESB frá 23. júlí 2014 um umgjörð fyrir hafskipulag.
Skotland
Marine (Scotland) Act 2010 2010 asp 5
Löggjöf á Norðurlöndum
Danmörk
Lov om maritim fysisk planlægning LOV nr 615 af 08/06/2016
Finnland
Markanvändnings- och bygglag 5.2.1999/132
Svíþjóð
Miljöbalk (1998:808)
Plan- och bygglag (2010:900)
Afgreiðsla: Samþykkt með nokkrum breytingum. Auk orðalagsbreytinga var skilgreiningu á haf- og strandsvæði breytt. Jafnframt er sveitarfélögum gert kleift að óska eftir breytingum á strandsvæðisskipulagi. Ráðherra er ávallt skylt að óska eftir því að svæðisráð taki strandsvæðisskipulag endurskoðunar og kanni hvort tilefni sé til breytinga. Kveðið er á um endurskoðun laganna þegar fyrsta strandsvæðisskipulag fyrir Austfirði annars vegar og Vestfirði hins vegar hefur verið unnið. Endurskoðunin skal hefjast eigi síðar en þremur árum eftir gildistöku laganna.
Efnisflokkar: Atvinnuvegir: Sjávarútvegur | Umhverfismál: Umhverfisstjórn og náttúruvernd