Þetta mál hefur sjálfkrafa verið sett í vöktun. Þú getur afvaktað það ofarlega á síðunni. Þú getur einnig breytt þessari virkni í notendastillingum.
Umsagnir: 47 | Þingskjöl: 5 | Staða: Lokið
Markmið:
Að innleiða viðeigandi ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks inn í íslenska löggjöf, að endurskoða ýmis ákvæði er lúta að hlutverki og valdheimildum ráðuneytisins og að tryggja í sessi notendastýrða persónulega aðstoð (NPA).
Helstu breytingar og nýjungar:
Gert er ráð fyrir að lögin gildi um fatlaða einstaklinga sem þurfa þjónustu í meira en 10-15 klukkustundir á viku. Ákvæði laga um félagsþjónustu sveitarfélaga gilda um þá sem þurfa minni aðstoð. Lagt er til að ráðherra verði veitt heimild til að skera úr ágreiningi um hvort reglur sveitarfélags séu í samræmi við lögin og að hann geti beitt þvingunarheimildum samkvæmt sveitarstjórnarlögum ef sveitarfélög bregðast ekki við löglegum fyrirmælum. Einnig er lagt til að sveitarfélögum sé í sjálfsvald sett að ákveða hvernig og að hvaða marki þau starfa saman að þjónustu við fatlað fólk. Lagt er til að þjónustuformið NPA, sem hingað til hefur verið starfrækt sem tilraunaverkefni, verði lögfest. Frumvarpið felur í sér nýtt ákvæði er lýtur að frístundaþjónustu við fatlaða nemendur sem og úrræði fyrir börn með miklar samþættar geð- og þroskaraskanir. Gert er ráð fyrir að sett verði lagastoð undir framtíðarskipan atvinnumála fatlaðs fólks sem byggist á viljayfirlýsingu ríkis og sveitarfélaga. Enn fremur er lagt til að sveitarfélögum beri að upplýsa einstaklinga um hvaða þjónustu þeir eigi rétt á og hvaða úrræði þeim standi til boða á meðan beðið er eftir að þjónusta sem hefur verið samþykkt hefjist. Að auki er kveðið á um að sveitarfélagi beri að rökstyðja skriflega þegar umsókn er hafnað að fullu eða að hluta. Lagt er til að lögfest verði samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks og að ráðherra beri skylda til að leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks.
Breytingar á lögum og tengd mál:
Um er að ræða ný lög sem koma í stað laga um málefni fatlaðs fólks.
Kostnaður og tekjur:
Gert er ráð fyrir að eftirfarandi atriði muni leiða til 967 milljóna kr. kostnaðarauka fyrir ríkissjóð: NPA, frístundaþjónusta við fatlaða nemendur, húsnæðisúrræði og tengd búsetuþjónusta fyrir börn með fjölþættan vanda og atvinnumál fatlaðs fólks.
Aðrar upplýsingar:
Skýrsla nefndar um samhæfða þjónustu við börn með alvarlegar þroska- og geðraskanir. Velferðarráðuneytið, nóvember 2013.
Viljayfirlýsing um framtíðarskipan atvinnumála fatlaðs fólks. September 2015.
Skilagrein verkefnisstjórnar um notendastýrða persónulega aðstoð. Janúar 2017.
Afgreiðsla: Samþykkt með nokkrum breytingum sem snúa m.a. að heiti laganna, skilgreiningum og orðalagi. Einnig var fellt brott 67 ára aldurstakmark sem var í 3. gr. frumvarpsins og lágmarksþjónustuþörf verður miðuð við 15 klst. á viku. Enn fremur er gildistöku laganna frestað til 1. október 2018.
Efnisflokkar: Samfélagsmál: Atvinnumál | Samfélagsmál: Félagsmál | Hagstjórn: Fjárreiður ríkisins | Stjórnarskipan og stjórnsýsla: Sveitarstjórnarmál