Þetta mál hefur sjálfkrafa verið sett í vöktun. Þú getur afvaktað það ofarlega á síðunni. Þú getur einnig breytt þessari virkni í notendastillingum.
Umsagnir: 11 | Þingskjöl: 5 | Staða: Lokið
Markmið: Að mæla fyrir um framtíðarskipan rannsókna efnahagsbrota og efla og styrkja ákæruvaldið í landinu.
Helstu breytingar og nýjungar: Verði frumvarpið að lögum flyst ákvörðun um málshöfðun að mestu frá embætti ríkissaksóknara til lögreglustjóra og héraðssaksóknara. Einnig flytjast verkefni embættis sérstaks saksóknara til héraðssaksóknara. Ríkissaksóknara er falið að hafa íhlutun og eftirlit með rannsókn og saksókn lögreglustjóra. Embætti héraðssaksóknara verður einnig fengið það hlutverk að annast lögreglurannsóknir í skatta- og efnahagsbrotamálum og nokkrum fleiri brotaflokkum.
Breytingar á lögum og tengd mál: Lög um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Kostnaður og tekjur: Verði frumvarpið óbreytt að lögum er talið að útgjöld ríkissjóðs aukist um 507 milljónir kr. Ekki hefur verið gert ráð fyrir þeim auknu útgjöldum í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015.
Umsagnir (helstu atriði): Umsagnir voru almennt jákvæðar en gerðar voru athugasemdir við ýmsar greinar frumvarpsins. Lögmannafélag Íslands taldi að skynsamlegt væri að bíða stofnunar millidómstigs. Ríkissaksóknari taldi erfitt að efla starfsemi embættisins ef fjórðungur fjárframlaga þess færist til hins nýja embættis héraðssaksóknara.
Afgreiðsla:
Frumvarpið var samþykkt með minni háttar breytingum.
Efnisflokkar: Lög og réttur: Dómstólar og réttarfar | Hagstjórn: Fjárreiður ríkisins | Lög og réttur: Löggæsla og eftirlit