Þetta mál hefur sjálfkrafa verið sett í vöktun. Þú getur afvaktað það ofarlega á síðunni. Þú getur einnig breytt þessari virkni í notendastillingum.
Umsagnir: 20 | Þingskjöl: 5 | Staða: Lokið
Markmið: Leiðrétting innleiðingar EES-réttar. Lögleiðing ákvæða úr heildarfrumvarpi til nýrra umferðarlaga sem brýnt er að nái fram að ganga.
Helstu breytingar og nýjungar: Breytingar á skilgreiningum á nokkrum ökutækjum til samræmis við tilskipanir Evrópusambandsins. Lagt er til að léttum bifhjólum verði skipt í tvo flokka eftir afli þeirra og einnig er í frumvarpinu að finna sérreglur um akstur þeirra. Lögð eru til ákvæði sem skylda atvinnubílstjóra til endurmenntunar. Samgöngustofu verður falið að veita undanþágur frá skráningu ökutækis sem ekki er ætlað til almennrar umferðar. Umferðareftirlitsmönnum verður heimilt að kanna ástand tiltekinna ökutækja á vegum og fjarlægja skráningarnúmer reynist þau vanbúin. Einnig eru lögð til ákvæði um að börn undir 135 sm á hæð skuli nota öryggisbúnað í bifreiðum.
Kostnaður og tekjur: Ákvæði frumvarpsins, sem varða skráningu ökutækja, geta haft áhrif á tekjur ríkissjóðs en talið er að þau séu óveruleg.
Umsagnir (helstu atriði): Í umsögnum voru einkum gerðar athugasemdir við 5. gr. frumvarpsins sem varðar endurmenntun atvinnubílstjóra og þótti greinin of íþyngjandi. Landssamtök hjólreiðamanna gerðu athugasemdir við að létt bifhjól í flokki I verði leyfð í umferð á öllum gangstéttum. Aukið vald eftirlitsmanna Samgöngustofu við skoðun á ástandi ökutækja á vegum úti var gagnrýnt. Einnig var gagnrýnt að horfið væri frá 150 sm hæðarviðmiði við notkun á öryggisbúnaði barna. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu og fleiri umsagnaraðilar komu með tillögur að viðbótargreinum í frumvarpið.
Afgreiðsla: Frumvarpið varð að lögum með breytingum sem einkum vörðuðu létt bifhjól. Einnig verður heimilt að ljúka endurmenntun fyrir atvinnubílstjóra með fjarnámi.
Efnisflokkar: Erlend samskipti: Alþjóðasamningar og utanríkismál | Lög og réttur: Löggæsla og eftirlit | Samgöngumál: Samgöngur