Þetta mál hefur sjálfkrafa verið sett í vöktun. Þú getur afvaktað það ofarlega á síðunni. Þú getur einnig breytt þessari virkni í notendastillingum.
Markmið: Að breyta nokkrum lögum er varða tekjur og gjöld ríkissjóðs.
Helstu breytingar og nýjungar:
Almenn 3% hækkun á krónutölusköttum og gjaldskrám í takt við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins. Hækkun á gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra, útvarpsgjaldi, skrásetningargjöldum í opinbera háskóla, hækkun á sóknargjöldum og framlagi til þjóðkirkjunnar. Lagðar eru til breytingar á fjárhæðum greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði en fallið frá lengingu fæðingarorlofs. Þá er um að ræða ákvæði er varða útreikning á kostnaðarþátttöku vistmanna í hjúkrunarrýmum fyrir aldraða og er lagt til að gjaldhlutfall vegna greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara verði lækkað. Loks er um að ræða ákvæði um lækkun skattfrádráttar til handa nýsköpunarfyrirtækjum og breytingar á lögum um Ríkisútvarpið og lögum um aukatekjur ríkissjóðs.
Breytingar á lögum og tengd mál: Breyta á 19 lögum er varða tekjuöflun ríkissjóðs.
Kostnaður og tekjur: Tekjur ríkissjóðs aukast um 2,7 milljarða árið 2014. Ekki liggur fyrir kostnaðarmat á þeim breytingum sem gerðar voru á frumvarpinu.
Umsagnir (helstu atriði): Ekki eru gerðar margar efnislegar athugasemdir við frumvarpið en hækkunum gjaldskrár og lækkunum á útgjöldum ríkissjóðs mótmælt.
Afgreiðsla: Samþykkt með nokkrum breytingum. Helstu atriðin voru að hætt var við svonefndan sjúklingaskatt og lækkun skattfrádráttar til nýsköpunarfyrirtækja var frestað og að auki breytingum sem hefðu haft áhrif á fjárhag RUV.
Efnisflokkar: Hagstjórn: Fjárreiður ríkisins | Hagstjórn: Skattar og tollar