Þetta mál hefur sjálfkrafa verið sett í vöktun. Þú getur afvaktað það ofarlega á síðunni. Þú getur einnig breytt þessari virkni í notendastillingum.
Markmið: Heildarendurskoðun laga um framkvæmdarvald ríkisins í héraði.
Helstu breytingar og nýjungar: Lagt er til að sýslumannsembættin í landinu verði níu í stað 24. Stjórnsýsluumdæmin verði Vesturland, Vestfirðir, Norðurland vestra, Norðurland eystra, Austurland, Suðurland, Vestmannaeyjar, Suðurnes og höfuðborgarsvæðið. Samhliða frumvarpinu er lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum. Í því frumvarpi er lagt til að löggæsla verði skilin frá starfsemi sýslumanna og stofnuð sex ný sjálfstæð lögregluembætti, sem verða því átta alls.
Breytingar á lögum og tengd mál: Verði frumvarpið að lögum falla úr gildi lög um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, nr. 92/1989.
Kostnaður og tekjur: Ekki er unnt að meta fjárhagsleg áhrif af lögfestingu frumvarpsins.
Umsagnir (helstu atriði): Í umsögnum um frumvarpið kom fram að varasamt væri að færa opinbert vald fjær fólki í dreifðum byggðum landsins. Hins vegar töldu margir að í frumvarpinu fælust tækifæri til að bæta samstarf stofnana og stjórnsýsla yrði einfaldari. Bent var á nauðsyn samráðs við stéttarfélög og starfsmenn vegna breytinganna.
Afgreiðsla: Frumvarpið varð að lögum með smávægilegum breytingum.
Efnisflokkar: Samfélagsmál: Byggðamál | Lög og réttur: Dómstólar og réttarfar | Lög og réttur: Löggæsla og eftirlit | Stjórnarskipan og stjórnsýsla: Stjórnkerfi og stjórnarskipunarmál