Þetta mál hefur sjálfkrafa verið sett í vöktun. Þú getur afvaktað það ofarlega á síðunni. Þú getur einnig breytt þessari virkni í notendastillingum.
Markmið: Að gera einstaklingum í verulegum greiðsluörðugleikum, og leitað hafa annarra úrræða við greiðsluvanda án árangurs, kleift að krefjast galdþrotaskipta á búi sínu.
Helstu breytingar og nýjungar: Umboðsmaður skuldara getur að uppfylltum tilteknum skilyrðum veitt umsækjendum fjárhagsaðstoð sem felst í greiðslu á tryggingu fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskiptanna. Algengast er að dómarar ákveði lágmarkstryggingu að fjárhæð 250 þúsund kr. við skipti á búum einstaklinga.
Breytingar á lögum og tengd mál: Sjá einnig lög um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010.
Kostnaður og tekjur: Áætlað er að útgjöld ríkissjóðs aukist um 140 milljónir kr. á árinu 2014. Á móti kemur að gert er ráð fyrir að afkoma hans verði óbreytt vegna fyrirhugaðrar hækkunar ríkistekna í formi aukinnar gjaldtöku á gjaldskylda aðila til greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara.
Umsagnir (helstu atriði): Umsagnaraðilar voru almennt sammála markmiði frumvarpsins en gerðu athugasemdir við þá leið sem valin er. Þeir töldu meðal annars eðlilegra að aðgerðin væri greidd úr ríkissjóði en kostnaður legðist ekki á fjármálafyrirtæki og lánastofnanir.
Afgreiðsla:
Frumvarpið varð að lögum með lagatæknilegum breytingum. Aðrar breytingar eru þær að gerðar eru sambærilegar kröfur um háttsemi skuldara og gert er í lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga og kveðið er á um gögn sem skulu fylgja umsókn um fjárhagsaðstoð. Ráðherra verður skylt að setja reglugerð um framkvæmd laganna.
Efnisflokkar: Lög og réttur: Dómstólar og réttarfar | Samfélagsmál: Félagsmál | Hagstjórn: Fjárreiður ríkisins | Atvinnuvegir: Viðskipti