Þetta mál hefur sjálfkrafa verið sett í vöktun. Þú getur afvaktað það ofarlega á síðunni. Þú getur einnig breytt þessari virkni í notendastillingum.
Markmið: Að draga til baka tekjutengingar greiðslna almannatrygginga til aldraðra og öryrkja, í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks frá 22. maí 2013.
Helstu breytingar og nýjungar: Lagt er til að frítekjumark ellilífeyrisþega vegna atvinnutekna verði hækkað úr 40.000 kr. í 109.600 kr. á mánuði. Einnig er lagt til að lífeyrissjóðstekjur skerði ekki lengur grunnlífeyri elli- og örorkulífeyrisþega. Kveðið er á um leiðbeiningar- og upplýsingaskyldu Tryggingastofnunar, eftirlit og meðferð persónuupplýsinga.
Breytingar á lögum og tengd mál: Verið er að draga til baka í áföngum breytingar sem gerðar voru með lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum nr. 90/2009, VII. kafli.
Kostnaður og tekjur:
Gert er ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins hafi í för með sér 850 milljóna kr. viðbótarútgjöld á þessu ári. Að samanlögðu er áætlað að frá og með árinu 2014 nemi árleg aukning útgjalda til almannatryggingakerfisins um 4,6 milljörðum kr.
Aðrar upplýsingar: Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks frá 22. maí 2013.
Umsagnir (helstu atriði): Margir umsagnaraðilar lýstu yfir ánægju með að fyrri skerðingar vegna tekna úr lífeyrissjóðum gengju til baka. Bent var á að tekjumunur lífeyrisþega myndi aukast og að frumvarpið hefði neikvæð áhrif á jafnrétti kynja. Hækkun á grunnlífeyri almannatrygginga var talin nýtast betur og stuðla fremur að jöfnuði. Bent var á mikilvægi þeirrar heildarendurskoðunar á almannatryggingakerfinu sem unnið hefur verið að. Ríkisskattstjóri benti á að skylda embættisins til að afhenda öðru stjórnvaldi upplýsingar bryti gegn trúnaðar- og þagnarskyldu sem á starfsmenn skattyfirvalda er lögð.
Afgreiðsla: Frumvarpið varð að lögum með þeim breytingum að kaflinn um leiðbeiningar- og upplýsingaskyldu og eftirlitsheimildir Tryggingastofnunar var felldur út.
Fjölmiðlaumfjöllun:
Árni Páll Árnason. Byrjað á öfugum enda. Fréttablaðið 27.6.2013.
Eygló Harðardóttir. Kjör lífeyrisþega leiðrétt strax. Fréttablaðið 26.6.2013.
Frítekjumark aldraðra hækkar í 1,3 milljónir. Morgunblaðið 26.6.2013.
Jóna Valgerður Kristjánsdóttir. Hluti skerðinga á kjörum eldri borgara dreginn til baka. Morgunblaðið 3.7.2013.
Telur bótagreiðslur kalla á skattahækkanir. Rúv.is 26.6.2013.
Þorbera Fjölnisdóttir. Loforð og efndir. Fréttablaðið 3.7.2013.
Efnisflokkar: Samfélagsmál: Almannatryggingar | Samfélagsmál: Félagsmál