Þetta mál hefur sjálfkrafa verið sett í vöktun. Þú getur afvaktað það ofarlega á síðunni. Þú getur einnig breytt þessari virkni í notendastillingum.
Markmið: Að auka tekjur ríkissjóðs í samræmi við forsendur fjárlaga 2013.
Helstu breytingar og nýjungar: Breytingum í frumvarpinu má skipta í nokkra flokka.
Sérstakar tekjuöflunaraðgerðir, þ. á m. hækkun virðisaukaskatts á gistiþjónustu, vörugjalds á bílaleigubíla og tryggingagjalds.
Breytingar sem viðhalda tekjum ríkissjóðs, þ. á m. er framlenging á umhverfissköttum sem áttu að falla niður í árslok 2012.
Breytingar sem snúa að aðgerðum í tengslum við kjarasamninga en það er lækkun atvinnutryggingagjalds og afnám afdráttarskatts af vaxtatekjum erlendra aðila.
Þá eru hækkanir á krónutölusköttum og gjaldskrám í samræmi við verðlagsforsendur.
Auk þessa eru aðgerðir sem lækka tekjur ríkissjóðs og auka útgjöld, t.d. hækkun vaxta- og barnabóta.
Breytingar á lögum og tengd mál: Breyta þarf tæplega 20 lögum sem flest tengjast skattheimtu.
Kostnaður og tekjur: Gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs aukist um 2,7 milljarða kr.
Aðrar upplýsingar: Frumvarp sem þetta er lagt fram á hverju þingi í tengslum við afgreiðslu fjárlaga og gengur venjulega undir heitinu Bandormur.
Umsagnir (helstu atriði): Gerðar eru fjölmargar athugasemdir sem flestar mótmæla hækkun gjalda og telja aðgerðirnar ekki skila þeim árangri sem ætlast er til auk þess sem þær séu´verulega íþyngjandi fyrir fyrirtæki og heimil.
Afgreiðsla: Nokkrar breytingar voru gerðar og þær helstar að hækkun virðisaukaskatts á gistiþjónustu var frestað til 1. september 2013 og fallið var frá hækkunum á ýmsum krónutölusköttum, þ.á m. á eldsneyti, bílum og léttu áfengi.
Efnisflokkar: Hagstjórn: Fjárreiður ríkisins | Hagstjórn: Skattar og tollar