Þetta mál hefur sjálfkrafa verið sett í vöktun. Þú getur afvaktað það ofarlega á síðunni. Þú getur einnig breytt þessari virkni í notendastillingum.
Markmið:
Að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi með fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu.
Helstu breytingar og nýjungar:
Aukin áhersla er lögð á almannaþjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins og er skyldum þess lýst ítarlega. Lagt er til að skilið verði milli almannaþjónustu og annarrar starfsemi. Mælt er fyrir um aukið aðgengi sjón- og heyrnarskertra að þjónustu. Lagðar eru til takmarkanir á auglýsingum í dagskrárliðum og hámarksauglýsingatími á klukkustund er styttur. Gert er ráð fyrir breytingum á skipan og vali stjórnar Ríkisútvarpsins og skil á milli verksviðs stjórnar og útvarpsstjóra eru skýrð. Í frumvarpinu er lögð til sú breyting að gjaldstofn Ríkisútvarpsins verði framvegis markaður tekjustofn.
Breytingar á lögum og tengd mál:
Ef frumvarpið verður að lögum falla úr gildi lög um Ríkisútvarpið ohf. nr. 6/2007.
Kostnaður og tekjur:
Í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins er reiknað með að afkoma ríkissjóðs muni versna um um það bil 875 milljónir kr. á ári verði frumvarpið lögfest óbreytt.
Aðrar upplýsingar:
Nefnd um endurskoðun laga um Ríkisútvarpið.
Tillögur starfshóps mennta- og menningarmálaráðherra um almannaútvarp á Íslandi. Janúar 2010.
Löggjöf á Norðurlöndum
Noregur
Lov om kringkasting. LOV 1992-12-04 nr. 127.
Danmörk
Bekendtgørelse af lov om radio- og fjernsynsvirksomhed. LBK nr 988 af 06/10/2011.
Finnland
Lag om Rundradion Ab 22.12.1993/1380.
Lag om televisions- och radioverksamhet 9.10.1998/744.
Svíþjóð
Radio- och tv-lag (2010:696).
Lag (1989:41) om finansiering av radio och TV i allmänhetens tjänst.
Löggjöf annarra ríkja um útsendingartíma stjórnmálaflokka í aðdraganda kosninga
Bretland
Samkvæmt grein 333 í Communications Act 2003 er OFCOM falið að setja reglur um útsendingartíma stjórnmálaflokka (Party political broadcast).
Fjallað er um Party Political Broadcasts í Commons Library Standard Note frá 17. desember 2012.
Kanada
Í Canada Elections Act 2000 c.9 er fjallað um Political Broadcasts í grein 332. Í grein 335 er fjallað um Broadcasting time to be provided to registered parties:
Sjá einnig Broadcasting Act (S.C. 1991, c. 11) grein 10 e
Hér er hægt að lesa nánari reglur Broadcasting Arbitrator um úthlutun á tíma til flokka, til dæmis fyrir kosningar.
Umsagnir (helstu atriði):
Margar ítarlegar umsagnir bárust. Nokkrir umsagnaraðila vísuðu einnig í umsagnir um frumvarpið á 140. löggjafarþingi og töldu að ekki hefði verið komið nægilega til móts við athugasemdir sem þar voru gerðar.
Lagt var til að Ríkisútvarpinu yrði falið að skilgreina tæknileg gæði þjónustunnar. Gerð var athugasemd við að almannaþjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins sé skilgreint of vítt og að ekki hefði tekist að aðskilja almannaþjónustu og samkeppnisrekstur með fullnægjandi hætti í frumvarpinu. Lagt er til að tekin verði upp ákvæði sem tryggi að viðtökuskilyrði miðla Ríkisútvarpsins verði sambærileg um allt land. Fjölmiðlanefnd gerði meðal annars athugasemdir við að ákvæði um andmæli væri óljóst.
Nefnd um aðgang stjórnmálahreyfinga og frambjóðenda að fjölmiðlum í aðdraganda kosninga gerði athugasemd varðandi 3. gr. frumvarpsins (7. tl. 2. mgr.) sem fjallar um gjaldfrjálsan útsendingartíma stjórnmálahreyfinga.
Afgreiðsla: Ýmsar breytingar voru samþykktar og var Ríkisútvarpinu meðal annars gert skylt að veita öllum gildum framboðum til Alþingis, forsetakosninga og fylkingum í þjóðaratkvæðagreiðslum jafnt tækifæri til að kynna stefnumál sín í sjónvarpi á hefðbundnum dagskrártíma og birta reglur þar að lútandi. Einnig er Ríkisútvarpinu skylt að texta allt fréttaefni og setja reglur um kostun dagskrárefnis og birta á vef sínum.
Fjölmiðlaumfjöllun: Fréttastjóri RÚV segir tillögu á þingi óhæfu. Fréttablaðið 19.2.2013.
Katrín Jakobsdóttir. Fjölmiðill í almannaþágu. Fréttablaðið 28.4.2012.
Friðrik Friðriksson. RÚV er ríki í ríkinu. Morgunblaðið 27.4.2012.
Auglýsingasölu RÚV settar meiri skorður í nýju lagafrumvarpi. Fréttablaðið 21.3.2012.
Jón Kaldal. Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði. Fréttatíminn 12.2.2012.
Auglýsingar í dótturfélag [frétt]. Morgunblaðið 9.2.2012.
Efnisflokkar: Hagstjórn: Fjárreiður ríkisins | Mennta- og menningarmál: Menningarmál | Atvinnuvegir: Viðskipti