Þetta mál hefur sjálfkrafa verið sett í vöktun. Þú getur afvaktað það ofarlega á síðunni. Þú getur einnig breytt þessari virkni í notendastillingum.
Markmið:
Að styrkja kynningu á íslenskum bókmenntum og skapa starfsumgjörð sem er til þess fallin að fylgja eftir átaki stjórnvalda í að koma íslenskum bókmenntum á framfæri erlendis.
Helstu breytingar og nýjungar:
Heiti laga um bókmenntasjóð breytist í: Lög um stuðning við íslenskar bókmenntir. Lagt er til að komið verði á fót sérstakri skrifstofu, Miðstöð íslenskra bókmennta, sem ætlað er að taka við hlutverki skrifstofu bókmenntasjóðs. Miðstöð íslenskra bókmennta er ætlað að styrkja útgáfu íslenskra skáldverka, styrkja þýðingar á íslenskum bókmenntum á erlendar tungur, sjá um kynningu og útbreiðslu á íslenskum bókmenntum hérlendis og erlendis og halda úti vef um íslenskar bókmenntir á íslensku og erlendum tungumálum.
Breytingar á lögum og tengd mál:
Lög um bókmenntasjóð og fleira nr. 91/2007.
Kostnaður og tekjur:
Ekki er gert ráð fyrir auknum kostnaði fyrir ríkissjóð.
Umsagnir (helstu atriði):
Í þeim umsögnum sem bárust var einkum lögð áhersla á að tryggja að aukin starfsemi kæmi ekki niður á framlagi til þýðinga. Meðal annars var lagt til að aðskilja á fjárlögum fjárveitingar til miðstöðvarinnar annars vegar og bókmenntasjóðs hins vegar.
Afgreiðsla: Allsherjar- og menntamálanefnd lagði fram nefndarálit með breytingartillögu á þingskjali 652. Þar var lagt til nýtt bráðabirgðaákvæði þar sem kveðið er á um skipun samráðshóps sem er ætlað að fjalla um framtíðarsýn og starfsumhverfi íslenskrar bókaútgáfu og leggja meðal annars fram tillögur og marka skýra stefnu um aukna rafbókavæðingu á Íslandi. Samráðshópurinn skili ráðherra skýrslu fyrir 1. september 2013. Þessi tillaga var samþykkt. Fyrir þriðju umræðu lagði nefndin fram nefndarálit með breytingartillögu á þingskjali 773. Þar var lagt til að fjárveitingum til miðstöðvarinnar yrði skipt upp á tvo fjárlagaliði og heiti laganna yrði: Lög um bókmenntir. Fumvarpið varð að lögum svo breytt.
Efnisflokkar: Hagstjórn: Fjárreiður ríkisins | Mennta- og menningarmál: Menningarmál