Þetta mál hefur sjálfkrafa verið sett í vöktun. Þú getur afvaktað það ofarlega á síðunni. Þú getur einnig breytt þessari virkni í notendastillingum.
Markmið:
Að gera nokkrar minni háttar breytingar á skattalögum sem flestar varða framkvæmdarleg atriði.
Helstu breytingar og nýjungar:
Lagt er til að við endurreikning á ólögmætum vöxtum gengistryggðra húsnæðis- og bílalána einstaklinga (ekki í atvinnurekstri), sbr. dóm Hæstaréttar frá 15. febrúar 2012, skuli breytingar á vöxtum vegna dómsins ekki teljast til tekna. Lagðar eru til breytingar er varða vaxtabætur þegar einungis annað hjóna er skattskylt hér á landi. Lagt er til að mönnum með takmarkaða skattskyldu hér á landi verði heimilt að draga leigugreiðslur af íbúðarhúsnæði erlendis frá leigutekjum af íbúðarhúsnæði hér á landi áður en til skattlagningar leigutekna kemur.
Breytingar á lögum og tengd mál:
Lög nr. 90/2003, um tekjuskatt.
Lög nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.
Lög nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.
Lög nr. 113/1990, um tryggingagjald.
Lög nr. 14/2004, um erfðafjárskatt.
Lög nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki.
Kostnaður og tekjur:
Líklega munu þessar breytingartillögur hafa óveruleg áhrif á tekjur og gjöld ríkissjóðs en ekki liggja fyrir upplýsingar um fjárhæðir í því sambandi.
Umsagnir (helstu atriði):
Nokkrar umsagnir hafa borist. Viðskiptaráð Íslands og Kauphöll Íslands gagnrýna sérstaklega 5. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um staðgreiðslu af hagnaði af viðskiptum með verðbréf. Fjármálaráðuneytið sendi nefndinni minnisblað þar sem greinin er skýrð frekar.
Afgreiðsla: Samþykkt nær óbreytt. Meginbreyting var að tilvísun í endurútreikninga vaxta ólöglegra lána varðandi tekjur fólks var felld brott.
Efnisflokkar: Hagstjórn: Skattar og tollar